Print this page

Spurningar og Svör


Geta allir lært að kafa? Já langflestir, það þarf að klára ákveðin verkleg og bókleg verkefni, sem er í valdi flestra. Það eru dæmi erlendis frá að fatlað fólk hafi lært að kafa, með því að nota sérstakan hjálparbúnað.

Er kalt að kafa við Ísland? Sjórinn er um 2-4°C yfir vetrartímann, en fer upp í um 14°C á sumrin, en búnaðurinn sem við notum ver okkur afar vel fyrir kuldanum. Þannig að engum á að vera kalt.

Hversu djúpt kafa menn? Eftir fyrsta námskeiðið ertu með réttindi til að kafa niður að 18 metrum, en eftir annað námskeiðið niður að 30 metrum. Reglan fyrir sportköfun er annars 30 metrar, hámark 40 eftir djúpköfunarnámskeið.

Hversu lengi dugir loftkúturinn? það fer eftir ýmsu, manninum sjálfum, því dýpi sem kafað er á og hvort menn séu að hreyfa sig mikið. Það er algengt að köfun standi í um 45 mínútur.

Hvað kostar að byrja að kafa? Byrjendanámskeið hjá okkur kostar aðeins 120.000 með öllu (bókum, sundlaug og láni á búnaði), og út úr því færðu alþjóðaskírteini í köfun sem hægt er að framvísa hvar sem er í heiminum. Búnaðurinn sem þú þarft kostar frá 350.000 en þeir sem læra hjá Kafarinn.is geta keypt búnað í tengslum við námskeiðið á sérstökum kjörum. Eftir námskeið og búnað kostar mjög lítið að stunda köfun, eina sem þú þarft er að pressa á kútana og koma þér á köfunarstaðina.

Er hægt að leigja búnað eftir námskeiðið? Já, við leigjum búnað til útskrifaðra kafara sem eru í ferðum með okkur.

Hvað er á kútunum? Það er útbreiddur misskilningur að það sé súrefni á kútunum okkar. Á kútunum er almennt þjappað andrúmsloft, nákvæmlega það sama og við öndum að okkur hérna. Svo erum við reyndar með svokallaða Nitrox pressu sem eykur hlut súrefnis í loftinu, en sérstakt námskeið þarf til að nota það.

Er hægt að læra úti á landi? Við erum tilbúin að koma hvert á land sem er og halda námskeið ef næg þátttaka næst, hafðu samband við hedinn@kafarinn.is til að fá frekari upplýsingar.

Hvernig skrái ég mig á námskeið? Þú sendir okkur póst á hedinn@kafarinn.is eða hringir í Héðinn í síma 699 3000.